Forsætisráðherra og íslenskir viðskiptamenn upplýstu um íslenskt viðskiptalíf og stöðu íslensku bankanna á ársfundi Íslenskameríska viðskiptaráðsins í New York í gær.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á árlegri ráðstefnu Íslenskameríska viðskiptaráðsins í New York í gær, fimmtudag, að íslenska ríkið hefði fullan hug á því að tryggja íslensku bönkunum áfram hagstætt umhverfi svo velgengni þeirra gæti haldið áfram. Hann sagði enn fremur að stoðir íslensku bankanna væru traustar og að efasemdir í þeirra garð, sem fram hefðu komið á erlendum vettvangi, væru á engan hátt réttlætanlegar.

Hann kvaðst sömuleiðis sannfærður um að bankarnir myndu standa af sér það óveður sem nú ríkti á fjármálamörkuðum. Þá sagði Geir, í svari við spurningu um evruskráningu Straums Burðaráss, að hann gæti ekki gefið skýr svör en niðurstaða þessara mála myndi fást fyrir næsta reikningsár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .