Íslensku viðskiptabankarnir þrír ásamt sex stærstu sparisjóðunum standast með prýði nýtt viðbótarálagspróf Fjármálaeftirlitsins, segir í fréttatilkynningu.

Álagsprófið nú kemur til viðbótar við niðurstöður Fjármálaeftirlitsins frá 14. mars síðastliðnum en samkvæmt fyrri útreikningum myndu íslensk fjármálafyrirtæki standast áföll á borð við 20% virðisrýrnun útlána, 35% niðurfærslu hlutabréfaeignar í innlendum félögum, 25% niðurfærslu í erlendum félögum og 20% veikingu krónunnar án þess að eiginfjárhlutfall þeirra fari niður fyrir 8% lögbundið lágmark.

Sá hluti álagsprófsins frá því í mars sem fjallar um tapshættu útlána miðast við vaxtafryst/virðisrýrð útlán, sem um þessar mundir eru með lægsta móti.

Af þeim ástæðum hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að reikna út áhrif af viðbótaráfalli sem miðast við þær forsendur að virðisrýrnun vegna útlána til innlendra aðila, annarra en íbúðaveðlána, sem nemur hæsta árlegu afskriftahlutfalli síðustu tíu ára fyrir viðskiptabankana (1,8%) annars vegar og sex stærstu sparisjóði í heild (2,0%) hins vegar.

Reiknað er viðbótar afskriftaframlag/virðisrýrnun vegna íbúðaveðlána (0,2%) sem er hæsta árlega afskriftaframlag hjá Íbúðalánasjóði síðustu sjö árin en tekið skal þó fram að tapreynsla miðað við endanlega töpuð útlán sjóðsins er minna en 0,1% af útlánum.

Niðurstaða útreikninga viðbótarálagsprófsins er sú að fyrir fjármálafyrirtækin myndi viðbótar útlánatap vera 24 milljarðar króna miðað við stöðu viðkomandi útlána í árslok 2005 samanborið við sjö milljarða áhrif af 20% lækkun virðisrýrðra útlána og fullnustueigna.

Lækkun á eiginfjárhlutfalli, til viðbótar við fyrri forsendu um útlánatap, nemur að meðaltali 0,5% stigum fyrir viðskiptabankana og rúmlega 1,1% stigi fyrir stærstu sparisjóðina og standast því prófið.