Arion banki og Íslandsbanki leggja drög að fjármögnun sinni á erlendum mörkuðum með útgáfu evru- eða dollarabréfa. Landsbankinn ætlar hins vegar að tryggja sér lánshæfismatseinkunn áður en haldið verður út á erlenda markaði. Svo kann að fara að dyr lánamarkaða opnist ekki Landsbankanum fyrr en árið 2015.

Bloomberg-fréttaveitan segir aðstæður í íslensku efnahagslífi betri hér en víðast hvar og hafi sendifulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins farið lofsorði um efnahagsbatann eftir hrun. Það hafi m.a. gert það að verkum að ríkissjóður hafi getað fjármagnað sig á erlendum markaði í tvígang, síðast með útgáfu dollarabréfa til tíu ára í maí. Þá hefur Landsvirkjun sömuleiðis fjármagnað sig með lánum í erlendri mynt.

Bloomberg segir tiltrú alþjóðlegra fjárfesta hafa aukist til muna á skuldabréfaútgáfu banka í löndum sem fóru illa út úr kreppunni. Þar á meðal er 750 milljóna króna útgáfa Banco Espirito í Portúgal í október og einn milljarðs evra útgáfa Bank of Ireland í síðasta mánuði. Þetta voru fyrstu útgáfur bankanna um nokkurra ára skeið.