Landsvirkjun skrifaði í dag undir samning um sambankalán upp á 10,5 milljarða króna. Lánið er í íslenskum krónum til þriggja ára. Þetta er veltilán sem fyrirtækið getur dregið á og endurgreitt eftir þröfum. Lánið er með framlengingarheimild til tveggja ára og getur lánstími því að hámarki orðið fimm ár, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Um lántökuna sáu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn.

Þetta er annað sambankalánið sem Landsvirkjun tekur á stuttum tíma en á þriðjudag fékk fyrirtækið 200 milljóna dala lán. Það jafngildir um 24,5 milljörðum íslenskra króna. Um lántökuna í vikunni sáu Barclays Capital, Citigroup og SEB. Aðrir bankar í láninu voru Arion Banki, JP Morgan, UBS, Landsbankinn og Íslandsbanki.

Þetta eru fyrstu sambankalánin sem íslenskt ríkisfyrirtæki tekur síðan í október 2008.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að markmið lántökunnar sé að tryggja aðgang að fyrirvaralausri fjármögnun ef hefðbundnar fjármögnunarleiðir lokast tímabundið. Með lántökunum hefur Landsvirkjun tryggt sér fjármögnun að jafnvirði um 35 milljarða króna til allt að 5 ára.