Bankarnir þurfa að setja þak á eða takmarka arðgreiðslur sínar og treysta fjárhag sinn frekar, að sögn Peter Dohlman, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi. Dohlman fór yfir efni yfirlýsingar AGS um stöðu og horfur í efnahagsmálum hér á landi í morgun. Hann lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að afnema gjaldeyrishöft. Á sama tíma sé óvíst með horfur í efnahagsmálum helstu viðskiptalanda. Af þeim sökum og vegna þess óróleika sem kann að fylgja í kjölfar afnáms hafta þá verði bankar að vera búnir að treysta bakland sitt, s.s. að styrkja eiginfjárhag sinn með þaki á arðgreiðslum og tryggja aðgang að lánsfé.

Stóru viðskiptabankarnir þrír, þ.e. Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, greiddu hluthöfum sínum samtals 31,8 milljarða króna fyrr á árinu vegna afkomunnar í fyrra. Ríkið fékk stærstan hluta arðsins eða rúma 20 milljarða króna.

Varnaðarorð AGS eru í samræmi við það sem fram kom í formála Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í síðasta riti bankans Fjármálastöðugleika . Þar skrifar Már að staða bankanna sé ekki eins góð og virðist við fyrstu sýn. Ein ástæða þess sé sú að erlend lausafjárstaða þeirra muni að óbreyttu versna verulega opnist ekki að nýju fyrir eðlilegan aðgang þeirra að erlendu lánsfé. Hann benti á að hluti góðrar afkomu bankanna byggist á virðishækkun útlána og fleiri óreglulegra þátta. Þá muni bankaskattur rýra afkomu þeirra og taldi hann því tilefni til að stilla arðgreiðslum í hóf.