„Ég verð að segja í hreinskilni að hinir nýju bankar hafa valdið mér vonbrigðum þegar kemur að skuldaaðlögun fólks og fyrirtækja. Samið var við fjármálastofnanir um að þær kæmu til móts við viðskiptavini sína með sértækri skuldaaðlögun á grundvelli laga," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni í kvöld.

„Nú liggur fyrir fagleg úttekt á frammistöðu bankanna í þessum efnum í skýrslu eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Þar kemur fram að bankarnir hafa gert fáa samninga um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga, eða alls 128 til ágústloka og 51 fyrirtæki hefur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á þessum grunni," sagði Jóhanna.

Bankarnir hefðu dregið lappirnar þegar kæmi að því að leysa úr stöðu einstaklinga sem væru að komast í þrot. „Við þetta verður einfaldlega ekki unað og stjórnvöld hljóta að fara fram á skýringar og úrbætur," sagði Jóhanna. „Það gengur ekki að eigur fólks séu settar á uppboð fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar. Í einhverjum tilvikum er sú leið hinsvegar óhjákvæmileg og þá verðum við að geta treyst á leigumarkaðinn og félagslegar húsnæðislausnir. "