Íslenska hagkerfið hefur tekið miklum framförum á síðustu árum með minna atvinnuleysi og betri skuldastöðu þjóðarbúsins. Þetta er meðal þess sem Håkon Reistad Fure, sérfræðingur hjá norska DNB bankanum, mun ræða á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins í dag.

Reistad Fure bendir á að árið 2009 hafi gæði eigna íslensku bankanna verið mjög léleg, en í dag séu þau góð. Þessi viðsnúningur sýni hve sterkt íslenska hagkerfið er og hafi leitt til þess að áhugi erlendra aðila á íslenska hagkerfinu hafi aukist. Íslensku bankarnir séu nú á meðal þeirra best fjármögnuðu í Evrópu og geti stutt við hagvöxt á Íslandi.

Á meðal annarra sem koma fram á fundinum eru Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, sem setur fundinn, Aldo Musacchio, dósent við Harvard Business School, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.