Auk þess að greiða yfir þrefalt hærri vexti en bankarnir á veltureikningum rukkar nýi sparisjóðurinn Indó hvorki færslu- né árgjald og leggur ekkert álag ofan á færslur í öðrum gjaldmiðlum. Í staðinn eru tekjustofnar Indó tveir: vaxtamunur og hlutdeild í þjónustugjöldum kortafyrirtækisins.

„Allir seljendur sem taka við greiðslu með korti greiða fyrir það gjald til kortafyrirtækisins. Við fáum hlutdeild í þessum tekjum af okkar kortum,“ útskýrir Tryggvi Björn Davíðsson, rekstrarstjóri og annar stofnendanna.

„Síðan erum við með litla yfirbyggingu, einfalda tækni og lítinn kostnað almennt og bara þurfum ekki meira. Nýjum vörum munu svo fylgja nýjar tekjustoðir til að standa undir kostnaði við þær.“

Myndu stóru bankarnir bjóða sömu vaxtakjör á veltureikningi og Indó ásamt því að afnema gjaldeyrisálagið og færslugjöldin á debetkortum sínum myndi það þýða 12-15 milljarða tekjutap fyrir þá á hverju ári að sögn Tryggva og Hauks Skúlasonar, framkvæmdastjóra og meðstofnanda.

Nánar er rætt við Tryggva & Hauk í Viðskiptablaði vikunnar.