Sala ríkisins á eignarhlut sínum í íslenskum bönkum er enn á dagskrá, en hún mun ekki eiga sér stað nema að baki búi víðtæk pólitísk samstaða. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á ráðstefnu Euromoney um fjárfestingarkostinn Ísland, sem fram fór í Lundúnum á þriðjudag.

Jafnframt vék hann sérstaklega að því að meðal stjórnmálaflokka á Íslandi væri nú þegar eining um að á þeim þyrfti að vera dreift eignarhald, sem yrði haft að leiðarljósi þegar kæmi að sölu þeirra. Segja má að bankasalan hafi verið hinn rauði þráður ráðstefnunnar, ásamt með áhyggjum margra ráðstefnugesta og frummælenda af pólitískri óvissu ef píratar kæmust í stjórn landsins eins og skoðanakannanir bentu eindregið til.

Bjarni hóf mál sitt á því að víkja að pólitískum hræringum í landinu í kjölfar birtingar á Panama-skjölunum svonefndu. Hann undirstrikaði að lýðræðið væri sterkt á Íslandi og að stjórnarkreppu hefði verið afstýrt hratt og örugglega þó að forsætisráðherra hefði farið frá. Það væri enn á sömu braut þó að ákveðið hefði verið að flýta kosningum. Hann tók svo af öll tvímæli um stöðu og stefnu Íslands: „Ísland fóstrar ekki peningapukur eða skattaundanskot.“ Hann bætti við að regluverkið hefði verið mjög hert að þessu leyti, væri í takt við það sem OECD hefði lagt línur um og raunar í hópi undanfara að því leytinu. Auk þess væri sérstakt norrænt samstarf á þessu sviði, sem gengi á margan hátt enn lengra í þessa átt, einkum er varðaði upplýsingasamninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .