Viðskiptabankarnir þrír skiluðu samtals 80 milljarða króna hagnaði á síðasta ári og voru með tæpa 600 milljarða króna bundið í eigið fé. Arðsemi eigin fjár var því um 14%. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að út frá þeim mælikvarða hafi arðsemi bankanna verið 1-4 prósentum umfram kröfu markaðarins sem liggi á bilinu 10-13%.

„En það er í raun ekki góður mælikvarði á undirliggjandi rekstur bankanna þar sem hluti hagnaðar þeirra er tilkominn vegna endurmats á útlánasafni en ekki vegna rekstrartekna. Ef hins vegar hagnaðurinn er skoðaður án virðisbreytinga útlána þá er arðsemi eigin fjár um 9% og þar af leiðandi undir kröfum markaðarins.“

Ásdís segir að íslensku bankarnir séu dýrir í rekstri miðað við banka í öðrum löndum. „Með aukinni hagræðingu væri hægt að minnka hluta þess kostnaðar en stór hluti kostnaðar þeirra er tilkominn vegna ytri þátta sem bankarnir hafa litla stjórn á. Þar á meðal er smæð landsins, há krafa um eiginfjárbindingu, aukin skattbyrði og sívaxandi regluverk.“ Ásdís segir að auknar álögur á bankana eins og bankaskattur og sérstakur fjársýsluskattur sé ígildi um 15% af þeim vaxtamun sem bankarnir innheimtu árið 2014 og sé í raun greitt af almenningi.