Íbúðalánasjóður þyrfti að greiða tæpa 1,3 milljarða samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins ef sjóðurinn væri ekki undanþeginn banka- og fjársýsluskatti. Útreikningarnir miða við launagreiðslur og skuldastöðu sjóðsins samkvæmt árshlutareikningi fyrir fyrri hluta árs 2013.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram á þriðjudaginn þá tekur bankaskatturinn nú einnig til fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Íbúðalánasjóður er áfram undanþeginn skattinum.Guðjón Rúnarsson, formaður Samtaka Fjármálafyrirtækja sagði í frétt á Vísir.is m.a. að það væri með ólíkindum að sjóðurinn sleppi við skattinn.

Ef Íbúðalánasjóður þyrfti að greiða bankaskatt til ríkisins þá myndi hann nema um 1.247 milljónum króna miðað við skuldastöðu sjóðsins. Fjársýsluskatturinn myndi svo bæta við um 38 milljónum króna til viðbótar en sá skattur tekur mið af launagreiðslum sjóðsins.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs nam um 11,7 milljörðum króna um mitt ár 2013 samkvæmt árshlutauppgjöri sjóðsins og því myndi skatturinn nema tæplega 11% af öllu eigin fé sjóðsins. Sjóðurinn er alfarið í eigu ríkissjóðs og því myndi þetta fjármagn því í raun fara úr einum vasa ríkisins í annan.