*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 5. apríl 2019 11:15

Bankaskattur skekki samkeppnisstöðu

Sértækir skattar hafa veruleg áhrif á getu bankanna til að bjóða betri kjör segir formaður bankaráðs Landsbankans.

Ritstjórn
Helga Björk Eiríksdóttir var endurkjörin formaður bankaráðs á fundinum í gær.
Haraldur Guðjónsson

 

Formaður bankaráðs Landsbankans telur að bankaskatturinn skekki samkeppnisstöðu þeirra á markaðnum og hafi veruleg áhrif á getu þeirra til að bjóða viðskiptavinum betri kjör.

Bankaskatturinn svokallaði byggir á bókfærðu virði skulda, að skattskuldum frátöldum, umfram 50 milljarða króna í lok hvers árs og er greiddur árlega. Skatturinn fellur undir ófrádráttarbært gjald til tekjuskatts. Skattprósentan er sem stendur 0,376.

Aðalfundur Landsbankans fór fram í gær og var afkoma bankans síðasta ár kynnt. Hagnaður var 19,3 milljarðar króna og greiðir bankinn 9,9 milljarða í arð. Arðsemi eiginfjár var 8,2 prósent að teknu tilliti til bankaskattsins en sé hann tekinn út fyrir sviga var það 9,8 prósent.

„Það dylst engum að miklar breytingar eru að eiga sér stað í fjármálaþjónustu, bæði með sífellt meiri hagnýtingu á stafrænni tækni en ekki síður vegna aukinnar samkeppni. Sú samkeppni kemur úr ýmsum áttum og nægir líklega að benda á samkeppni af hálfu lífeyrissjóða og nýjum fjártæknifyrirtækjum. En samkeppnin kemur líka frá útlöndum og er líklegt að sú samkeppni muni aukast á næstu árum,“ sagði Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, á fundinum.

Óhjákvæmilegt væri að víkja á þá sérstöku skatta og gjöld sem bönkum er gert að greiða. Í Hvítbók um framtíð fjármálakerfisins, sem gefin var út undir lok síðasta árs, kemur fram að skattar á bankakerfið séu margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Fyrirhugað er að lækka fyrrgreindan bankaskatt úr 0,376 prósent af heildarskuldum í 0,145 prósent.

„Í hvítbókinni er jafnframt bent á að fyrirhuguð lækkun [...] mun skila álíka lækkun í rekstrarkostnaði og ef starfsfólki stóru bankanna þriggja myndi fækka um 15% eða sem jafngildir 400 stöðugildum. Það er því ljóst að sértækir skattar hafa veruleg áhrif á getu bankanna til að bjóða viðskiptavinum betri kjör og skekkir samkeppnisstöðuna á fjármálamarkaði verulega,“ sagði Helga.

Í ræðu Helgu kom einnig fram að fullnaðarhönnun nýbyggingar nýrrar höfuðstöðva bankans sé vel á veg komin og ætti að vera lokið í árslok. Gert er ráð fyrir því að bankinn flytji höfuðstöðvar sínar að Austurbakka 2 innan þriggja ára.

 

Stikkorð: Landsbankinn skattar Hvítbók