*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 3. október 2019 15:10

Bankaskatturinn er skattur á neytendur

Villhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, telur rétt að fella bankaskattinn niður hið snarasta.

Jóhann Óli Eiðsson
Vilhjálmur Bjarnason telur ekki nóg að lækka bankaskattinn.
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Ég get ekki látið hjá líða að senda virðulegri þingnefnd umsögn um framangreint frumvarp.“ Svo hefst umsögn Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um frumvarp til breytingar á svokölluðum bankaskatti.

Samkvæmt frumvarpinu mun gjaldhlutfallið lækka í þrepum úr 0,376% í 0,145%. Gjaldárið 2021 verður það 0,318%, gjaldárið 2022 verður það 0,261% og gjaldárið 2023 verður hlutfallið 0,203%. Tekjuárið er í öllum tilfellum árið á undan. Frumvarpið var áður lagt fram á vorþingi en náði ekki fram að ganga.

Skatturinn var settur á fyrst árið 2011 en þá var gjaldhlutfallið 0,041%. Þegar ríkisstjórnin 2013-16 lagði í „hina svokölluðu leiðréttingu“ var gjaldhlutfallið hækkað meðal annars til að fjármagna hana. Frá þeim tíma hefur gjaldið verið nær óbreytt en skatturinn skilar um 10,1 milljarði í ríkissjóð á þessu ári. Það samsvarar tæplega 12% af áætluðum rekstrarkostnaði fjármálafyrirtækja. Eftir lækkun mun skatturinn skila um 5 milljörðum í vasa ríkisins. Þá er skatturinn ekki frádráttarbær frá tekjuskatti.

„Í fyrirsögn [frumvarpsins] er fjallað um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Það er rangnefni því þessi skattur er greiddur af lántökum og eykur vaxtamun bankanna,“ ritar Vilhjálmur og heldur áfram: „Með öðrum orðum, þetta er skattur á neytendur, ekki fjármálafyrirtæki og leggst fyrst og fremst á lántakendur.“

Vilhjálmur bendir á að skatturinn dragi úr skilvirkni fjármálakerfisins og dragi einnig úr samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja gagnvart „skuggabanastarfsemi“ og lífeyrissjóðum. Það síðan minnki verðmæti banka í eigu ríkisins og auki fjármögnunarkostnað heimila og fyrirtækja.

„Forsenda þessa sérstaka skatts var svokölluð „leiðrétting“ húsnæðislána árið 2014. Sú aðgerð ein og sér var mjög óréttlát fyrir lántakendur, þar sem lántakendum var mjög mismunað eftir lánsformum og tilgangi lána. Ef Alþingi hefur áhuga á að auka hagkvæmni og skilvirkni fjármálamarkaðar til hagsbóta fyrir lántakendur er rétt og eðlilegt að fella þennan skatt niður þegar í stað,“ skrifar Vilhjálmur.

„Það skal rifjað upp, að það var aðeins einn heiðvirður þingmaður sem greiddi atkvæði gegn þessum skatti á haustþingi 2013,“ segir Vilhjálmur í niðurlagi umsagnar sinnar og vísar að sjálfsögðu þar til síns atkvæðis.