Skuldabréf innlánsstofnana í eigu lífeyrissjóðanna hafa verið færð niður um rúm 60 prósent frá bankahruni, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Þorri þeirra bréfa var gefinn út af bönkum sem eru fallnir.

Virði þeirra nam um 148 milljörðum króna í septemberlok 2008 en er nú bókfært á 57,3 milljarða króna. Þó er ómögulegt að meta virði skuldabréfa sem útgefin voru af gömlu viðskiptabönkunum þremur fyrir lífeyrissjóðina. Sjóðirnir voru allir með gjaldeyrisskiptasamninga við bankana sem óeining er um hvernig eigi að gera upp. Það mál verður gert upp fyrir dómstólum. Komi til þess að lífeyrissjóðirnir þurfi að borga bönkunum til baka vegna uppgjörs á samningunum, nýtast skuldabréf útgefin af þeim til 100 prósentna skuldajöfnunar.

Þurfa mögulega ekki að afskrifa bréfin

Það þýðir í raun að sjóðirnir þurfa ekki að afskrifa neitt vegna bankaskuldabréfanna þrátt fyrir að raunvirði þeirra sé í besta falli rúmur fimmtungur af því sem þau voru keypt á. Ef niðurstaða dómstóla verður á þann veg að lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að greiða neitt vegna gjaldeyrisskiptasamninganna þurfa þeir þó að færa virði bankaskuldabréfanna niður, enda nýtast þau þá ekki lengur til skuldajöfnunar. Á móti kemur að lífeyrissjóðirnir hafa þegar framkvæmt varúðarniðurfærslur vegna gjaldmiðlaskiptasamninganna. Það tap yrði þá ofáætlað og myndi bæta niðurfærslur á bankaskuldabréfunum upp að einhverju leyti.