James Gorman, forstjóri fjárfestingabankans Morgan Stanley segir að bankastarfsmenn séu enn of hátt launaðir. Líklegt sé að laun þurfi að lækka og störfum að fækka til að hægt sé auka arðsemi hluthafa. Þetta kemur fram í frétt The Guardian um málið.

Áður hefur komið fram að Morgan Stanley hyggst segja upp 4.000 manns, sem eru um 7% af vinnuafli bankans, fyrir lok þessa árs. Ekki er útilokað að fleiri missi vinnuna á næsta ári og að aðrir þurfi að taka á sig launalækkun.

Gorman segir að áður hafi bankastarfsmenn hækkað í launum eftir því sem tekjur hafi aukist, en aldrei lækkað aftur þegar tekjurnar lækka þar sem bankarnir hafi verið hræddir við að missa starfsfólk.

Þessi ummæli Gorman eru á svipuðum nótum og önnur sem komið hafa innan úr öðrum bönkum að undanförnu. Fyrir skömmu kom fram að Deutsche bank ætlar að lækka bónusa og að lægri hluti tekna myndi fara í laun. Þá er UBS að íhuga að setja þak á bónusa og að tengja þá við arðsemi bankans. Forstjóri Barclays sagði einnig fyrir skömmu að bónusar yrðu greiddir út í takt við það hvernig starfsmenn stunduðu viðskipti, en ekki bara tekjurnar sem þeir skapa.