Ef skuldavandi starfsmanns viðskiptabanka er svo mikill að hann neyðist til þess að lýsa sig gjaldþrota eða þarf að nýta róttækustu skuldaúrræði er viðkomandi vikið úr starfi eða hann fluttur til innan bankans.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að ríkisskattstjóri skoðar nú tugi mála vegna skattlagningar á söluréttarsamningum sem fyrirtæki, þar á meðal bankarnir, gerðu við starfsmenn sína. Skattstjóri telur að samningana hafi átt að skrá sem launatekjur og greiða skuli skatt samkvæmt því en ekki fjármagnstekjuskatt, eins og gert var.

Ljóst þykir að samningar sem þessir geta breytt skuldastöðu þeirra sem þá gerðu á svipstundu. Þá á fjöldi landsmanna í skuldavanda og starfsmenn banka ekki undanskildir. Í svörum bankanna við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um innri reglur þeirra um starfsmenn í greiðsluvandræðum, aðra en framkvæmdastjóra og stjórnarmenn, kemur fram að starfsmenn geta nýtt sér flest þau skuldaúrræði sem bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum án þess að vera vikið úr starfi eða vera fengið nýtt starf innan bankans. Ef skuldavandinn er mikill er gripið til aðgerða. Svör bankanna eru lík og virðast reglur er lúta að skuldum starfsfólks vera svipaðar eða þær sömu innan veggja þeirra.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .