Mál embættis sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi bankastjórum Kaupþings og Landsbankans og 13 einstaklingum til viðbótar sem tengjast meintri markaðsmisnotkun með hlutabréf bankanna í aðdraganda falls bankanna verða þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi á miðvikudag, síðasta vetrardag. Málin eru tvö og lúta bæði að tilraunum til að halda uppi gengi hlutabréfa bankanna þegar halla tók undan fæti á fjármálamörkuðum haustið 2008.

Fimmtán ákærðir

Fyrra málið er tengt ákærum á hendur níu fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings. Þessir eru ákærðir: Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, Bjarki Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, Björk Þórarinsdóttir, sem vann á fyrirtækjasviði Kaupþings, Einar Pálmi Sigmundsson, forstöðumaður eigin viðskipta, Birnir Sær Björnsson, eigin viðskipti, og Pétur Kristinn Guðmarsson, eigin viðskipti.

Í hinum málinu eru sex fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn gamla Landsbankans ákærðir. Þessir eru ákærðir: Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri, Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, Ívar Guðjónsson,  forstöðumaður eigin viðskipta, Steinþór Gunnarsson forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, Júlíus Steinar Heiðarsson miðlari og Sindri Sveinsson miðlari.