Ekki er búið að ganga endanlega frá ráðningu í stjórnunarstöður í ríkisbönkunum og þar með segist fjármálaráðherra ekki geta upplýst um kynjahlutföll í stjórnunarstöðum bankanna.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, m.a. út í það, á Alþingi í dag, hvert kynjahlutfall meðal stjórnenda bankanna þriggja hefði verið fyrir yfirtöku ríkisins og hvert það væri nú.

Árni sagðist ekki vita hvernig hlutfallið hefði verið fyrir fall bankanna og að hann gæti ekki, eins og áður sagði, upplýst um stöðuna núna.

Þá sagði hann aðspurður að það væri á ábyrgð bankaráða og bankastjóra að uppfylla jafnréttislög. Hann minnti síðan á að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi ættu fulltrúa í bankaráðunum.