Árið 1992 tók Davíð Torfi Ólafsson þátt í því ásamt föður sínum, Ólafi Torfasyni, að opna Hótel Reykjavík sem þá var þrjátíu herbergja hótel á Rauðarárstíg. Tuttugu og þremur árum seinna er Davíð framkvæmdastjóri Íslandshótela, fyrirtækis sem rekur fimmtán hótel og á samtals um 1.500 hótelherbergi um allt land.

Grand Hótel, Fosshótelin, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík eru öll í eigu Íslandshótela. Íslandshótel er eitt stærsta hótelfyrirtæki landsins, en Davíð segir það ekki endilega vera kappsmál að vera stærstir á markaðnum. "Við viljum bara hafa hérna öflugan og góðan rekstur og við viljum búa starfsfólkinu okkar vel. Að öllum líði vel sem vinna hérna og svo gestunum sem koma hérna á hótelin," segir hann.

Leggið þið áherslu á að hótel Íslandshótela hafi sérstöðu á meðal hótela hér á landi?

„Kannski engin bein sérstaða, heldur höfum við ákveðið mottó sem er númer eitt, tvö og þrjú - að veita góða þjónustu. Það er eitt af þessum atriðum sem þú manst eftir þegar þú ferð á hótel einhvers staðar. Þú manst eftir því að þú fékkst alveg frábæra þjónustu, kannski á einhverjum veitingastað eða í móttökunni, hjálpsamur starfsmaður sem hringdi fyrir þig og græjaði fyrir þig hitt og þetta. Hvort að þetta var gamall stóll eða nýr stóll sem var á herberginu, þú ert fljótur að gleyma því. Það er því lykilatriði, að bjóða góða þjónustu.

Það er líka lykilatriði að bjóða upp á góð rúm, að fólk fái góðan svefn á hótelunum hjá þér. Og svo er lykilatriði líka að hafa góðan morgunmat. Þetta eru svona þessi þrjú veigamiklu atriði sem við höfum haft að leiðarljósi í okkar rekstri. Það á að skila sér þannig að þegar þú kemur á okkar hótel og þú spyrð einhvern, hvaða starfsmann sem er, hvað Íslandshótel standa fyrir, þá eiga allir að geta svarað þessu.“

Geturðu lýst því fyrir mér hvernig hótelbransinn á Íslandi var á þeim tíma sem þú varst að byrja að fylgjast með honum?

„Ég get lýst því og þá er ég nú bara að hafa eftir föður mínum. Þetta var mjög erfiður tími. Hann byrjar árið 1992. Hótelbransinn var ekki hátt skrifaður á Íslandi á þeim tíma. Hann hefur nú sagt frá því að þegar hann var á þessum tíma að berjast við að opna Hótel Reykjavík og að reyna að opna bankareikning og fá einhverja fyrirgreiðslu, að það var mjög erfitt.

Hann hefur gjarna lýst því þannig að þegar að hann var að taka í spaðann á bankastjóranum þá fóru þeir strax og þvoðu sér um hendurnar á eftir,“ segir Davíð og hlær. „Það var líka mjög lærdómsríkur tími. Og þetta hefur breyst mjög mikið frá þessum tíma.“

Ítarlegt viðtal við Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandshótela, er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .