Forstjóri Royal Bank of Scotland (RBS) ætlar ekki að taka við bónusgreiðslum fyrir árið 2009 samkvæmt fréttum Wall Street Journal og Financial Times. Heimildir blaðanna segja að með því vilji hann koma til móts við reiði almennings og stjórnmálamanna yfir bónusgreiðslum bankastarfsmanna. Sérstaklega þeirra banka sem fengið hafa ríkisaðstoð eða séu að stórum hluta í eigu breska ríkisins. Ríkissjóður Breta á 84% í RBS eftir að skattgreiðendur björguðu honum frá falli 2008 og juku eiginfjárframlag til hans í fyrra.

Forstjórinn, Stephen Hester, átti að fá 1,6 milljónir punda í bónusgreiðslur eða um 320 milljónir króna. Í heildina er bónuspotturinn sem starfsmenn eiga að fá greitt úr 1,3 milljaðar punda eða um 260 milljarðar miðað við gengi pundsins gagnvart íslensku krónunni í dag.

Hester fetar með þessu í fótspor forstjóra og stjórnarformanns Barclays bankans, sem í síðustu viku sögðust ekki ætla að þiggja bónusgreiðslur. Ákvörðunina tóku þeir vegna viðbragða almennings í Bretlandi og þrátt fyrir að Barclays þáði enga beina neyðaraðstoð frá breskum stjórnvöldum.