Sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans tekur gildi um áramót verði l agafrumvörp, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lögðu fram á Alþingi í gær, að lögum. Samhliða því verður seðlabankastjórum fjölgað úr tveimur í fjóra.

Samkvæmt frumvörpunum verður einn seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar. í dag eru seðlabankastjórar tveir, einn aðalseðlabankastjóri og einn aðstoðarseðlabankastjóri. Auk þess mun einn varaseðlabankstjóri koma í stað forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Sá mun bera ábyrgð á fjármálaeftirliti en hinir tveir munu bera ábyrgð á fjármálastöðugleika annars vegar og peningastefnu hins vegar.

Forsætisráðherra mun skipa seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra til fimm ára í senn að hámarki tvívegis líkt og núgildandi lög segja til um. Þriggja manna nefnd skipuð af forsætisráðherra mun fjalla um hæfni umsækjenda og ráðherra mun að loknu matsferli skipa í embættin.

Í frumvörpunum er gert ráð fyrir að breytingar verði á stjórnkerfi Seðlabankans þannig að þrjár nefndir taki ákvarðanir um beitingu valdheimilda Seðlabankans, það verði peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, fjármálastöðugleikanefnd metur kerfisáhættu og tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja sem varða fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlitsnefnd sem tekur ákvarðanir sem varða fjármálaeftirlit samkvæmt frumvörpunum.