Viðskiptanefnd Alþingis fundaði í morgun þar sem nýbirtir ársreikningar Íslandsbanka og Arion banka voru til umfjöllunar. Laun bankastjóra voru einnig rædd á fundinum. Bankastjórar stóru viðskiptabankanna voru boðaðir á fundinn en mættu ekki.

Fulltrúar Íslandsbanka og Arion banka mættu á fundinn og fóru yfir ársreikninga félaganna. Landsbankinn hefur ekki skilað uppgjöri fyrir síðasta ár. Fulltrúi Arion banka fullyrti að mánaðarlaun Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, séu undir 3 milljónum króna. Í ársreikningi bankans kemur fram að laun hans hafi á síðasta ári verið um 30 milljónir króna en hann hóf störf í júní. Það jafngildir um 4,2 milljóna króna mánaðarlaunum. Að sögn Magnúsar Orra Schram, varaformanns viðskiptanefndar, voru ekki gefnar frekari skýringar á þessum mismun.

Gera má ráð fyrir að greiðsla við ráðningu skýri mun á mánaðarlaunum samkvæmt upplýsingum fulltrúa Arion banka og launum samkvæmt ársreikningi.

Þá kom fram á fundinum að stjórnarmaður Bankasýslu ríkisins kaus með launakjörum Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, en sat hjá þegar kosið var um launahækkun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka. Mánaðarlaun Birnu Einarsdóttur voru um 2,6 milljónir króna. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, var með 1,1 milljón í mánaðartekjur.

Á fundinum kom fram að formaður stjórnar Íslandsbanka hafi kannað laun hjá forstjórum 40 stærstu fyrirtækja landsins. Laun Birnu Einarsdóttur hafi verið miðuð við miðbil þeirra.

Líkt og fram hefur komið var hagnaður Íslandsbanka jákvæður á síðasta ári um 29,4 milljarða króna. Að stærstum hluta skýrist hagnaðurinn af 14,5 milljarða hækkun lánasafns. Bankasýsla ríkisins hefur hafið vinnu við að bera saman ársreikninga bankanna, líkt og gert var í fyrra. Von er á skýrslu Bankasýslunnar á vormánuðum.

Viðskiptanefnd fundar að nýju seinnipartinn á morgun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort bankastjórar verði boðaðir á fund nefndarinnar að nýju. Magnús Orri segir að ekki sé búið að ljúka umræðu um uppgjör bankanna.

Uppfært kl 12:03: Fram kom í hádegisfréttum Stöðvar 2 að Höskuldur Ólafsson fékk 10 milljóna króna eingreiðslu þegar hann hóf störf hjá bankanum í júní síðastliðnum. Mánaðarlaun hans eru því um 2,9 milljónir á mánuði.