Höskuldur H. Ólafsson - Bankastjóri Arion banka
Höskuldur H. Ólafsson - Bankastjóri Arion banka
© BIG (VB MYND/BIG)
„Vissulega munum við skoða þetta og meta næstu skref. Hingað til höfum við unnið eftir samkomulagi milli ríkis, lánastofnanna og lífeyrissjóða sem kynnt var í desember. Þeirri vinnu hefur miðað ágætlega hjá bankanum og því starfi munum við halda áfram,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, um hvort Arion banki ætli sér að bjóða viðskiptavinum sínum svipaðar leiðir og Landsbankinn kynnti í gær. Höskuldur segir að hluti af þeim úrræðum sem Landsbankinn hefur nú kynnt sé sambærilegur lausnum sem Arion banki hefur boðið viðskiptavinum sínum í tæp tvö ár, og reynst hafi vel.

Meðal þeirra leiða sem Landsbankinn kynnti í gær er endurgreiðsla 20% af vöxtum af lánum einstaklinga og heimila sem greiddir hafa verið frá lok árs 2008 til 30. apríl sl. Endurgreiðslan kemur til lækkunar eftirstöðva, en ef viðskiptavinur er skuldlaus verður endurgreiðslan lögð inn á innlánsreikning viðkomandi.

Höskuldur segir að þessi leið, endurgreiðsla vaxta, virðist vera ný almenn aðgerð. „Það er alveg ljóst að slík aðgerð er gríðarlega kostnaðarsöm og það eru eigendur Landsbankans, skattgreiðendur, sem á endanum munu bera kostnaðinn af þessari aðgerð, sem nýtist um 30 þúsund af viðskiptavinum Landsbankans,“ segir hann.

Aðgerðir Landsbankans hafa vakið nokkra athygli, en þær eru ekki gerðar í samstarfi við stjórnvöld eða aðra á fjármálamarkaði, líkt og fyrri aðgerðir, sem eiga að vinna gegn skuldavanda heimila, hafa verið. Á blaðamannafundi Landsbankans í gær var ekki greint frá heildarkostnaði aðgerðanna fyrir bankann, en fullyrt að þær hlaupi á tugum milljarða.

„Við erum hugsi yfir þessu og höfum skilning á óskum okkar viðskiptavina um að þeim standi þetta einnig til boða. Því er ekki að neita að þetta setur ákveðna pressu á önnur fjármálafyrirtæki sem og lífeyrissjóði landsins. Við bíðum einnig eftir viðbrögðum Íbúðalánasjóðs sem eins og Landsbankinn er í eigu ríkisins.“