Bob Dimon, forstjóri breska bankans Barclays, ætlar ekki að segja af sér þrátt fyrir að bankinn hafi undir hans stjórn verið uppvís að víðtækri misnotkun á markaði með millibankavexti. Breska fjármálaeftirlitið (FSA) greindi frá þessu í vikunni og sektaði bankann um 290 milljónir punda, um 40 milljarða íslenskra króna. Fleiri bankar eru undir smásjá fjármálayfirvalda vegna brota af þessu tagi, þar á meðal Royal Bank of Scotland.

Í úrskurði FSA í vikunni sagði að segir að brot Barclays séu alvarleg og snerti þau marga yfirmenn í bankanum. Bankastjórinn og þrír háttsettir stjórnendur bankans greindu frá því í kjölfarið að þeir hafi ákveðið að taka ekki við bónusgreiðslum sem þeir áttu von á vegna málsins.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafa gagnrýnt stjórnendur bankans vegna brotanna. Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, sagði í vikunni að taka eigi hart á brotum starfsmannanna.

Diamond hefur skrifað breskum þingmönnum bréf þar sem hann fer yfir málið. Í bréfinu fordæmir hann brotin og segir þau skrifast á nokkra starfsmenn sem hafi með þeim reynt að hagnast sjálfir.