Eivind Kolding, bankastjóri Danske Bank, hættir störfum í dag. Stjórn bankans vill ráða eftirmann sem hefur dýpri skilning á bankastarfsemi, en Kolding. Kolding hefur vermt forstjórastólinn hjá Danske Bank í rétt um eitt og hálft ár. Kolding var áður forstjóri danska skipaflutningarisans A.P. Möller-Maersk.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Ole Andersen, stjórnarformanni Danke Bank, að stjórnin vinni nú að stefnubreytingu sem miði að því að hafa hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi í meiri mæli en áður og þjónusta þá betur. Nýr forstjóri þurfi því að búa yfir öðrum eiginleikum en Kolding.

Danske Bank kom illa undan fjármálakreppunni, ekki síst vegna slæms rekstrar dótturbanka á Írlandi. Þá hefur ánægja með bankann lækkað nokkuð undanfarið. Hann er í þriðja sæti á ánægjuvog Börsen á eftir norrænu bönkunum SEB AB og Nordea Bank.