Áfrýjunardómstóll í Þýskalandi hefur ógilt sýknudóm yfir sex sakborningum í Mannesmann-málaferlunum, en á meðal þeirra er Josef Ackermann, bankastjóri Deutsche Bank. Talið er að niðurstaðan kunni að knýja hann til að segja af sér.

Financial Times sagði í dag frá því að Deutsche Bank, sem er stærsti banki Þýskalands, hefði gert áætlanir um hver gæti tekið við af Ackermann, færi málið á þennan veg.

Ackermann var í fyrra, ásamt fimm öðrum sakborningum, sýknaður af héraðsdómstóli í Düsseldorf, fyrir að bregðast skyldum sínum með því að samþykkja háar bónusgreiðslur til stjórnenda fjarskiptafyrirtækisins Mannesmann, fyrir nærri sex árum.

Vodafone eignaðist Mannesmann árið 2000 með fjandsamlegri yfirtöku og borgaði 178 milljarða evra fyrir fyrirtækið. Ackermann var þá stjórnarformaður Mannesmann.

Ackermann, sem fékk engar bónusgreiðslur, hefur neitað allri sök. Klaus Esser, fyrrum framkvæmdastjóri Mannesmann, fékk 15 milljónir evra, en dómstóll kvað upp úr í október að sú greiðsla hefði ekki verið gerð með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi.

Í dag ógilti sem fyrr segir áfrýjunardómstóll dóm undirréttar frá því í fyrra og skipaði svo fyrir að réttað skyldi í málinu öllu á ný. Það kann að taka allt að sex mánuði og þykir gera stöðu Ackermanns erfiða.