Stjórn Nýja Glitnis, í samráði við framkvæmdastjórn bankans, hefur samþykkt launaramma fyrir stjórnendur og starfsmenn bankans.

Í því felst að mánaðarlaun bankastjóra verða 1750 þúsund krónur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Glitni.

„Við í framkvæmdastjórninni höfum farið yfir þessi mál síðustu vikuna í samráði við stjórn bankans. Við töldum mikilvægt að fá ákveðin launaramma til þess að vinna með,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóra Nýja Glitnis í tilkynningunni.

„Markmiðið með slíkum launaramma er að geta ákveðið laun starfsmanna með tilliti til ábyrgðar, starfssviðs og sérhæfðrar þekkingar og reynslu. Nú hefjumst við handa við að byggja upp öflugan og góðan banka á nýjan leik með það að markmiði að þjónusta heimilin í landinu og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.”