Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, er með tæplega 1,1 milljón á mánuði samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið hefur fengið frá bankanum og sagt er frá í dag. Þar með er hann launalægri en Birna Einarsdóttir í Íslandsbanka og Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion. Kjararáð ákvarðar laun bankastjóra Landsbankans. Samtals námu laun og bifreiðahlunnindi Steinþórs í fyrra 7.940.122 krónum án launatengdra gjalda en hann hóf störf í júní.

Fram kemur í ársreikningi Arion banka, að Höskuldur fékk rúmar fjórar milljónir í laun á mánuði að meðaltali á seinni hluta síðasta árs. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk rúmlega 2,6 milljónir á mánuði á árinu. Bankastjóralaun í báðum bönkunum hafa hækkað á milli ára, að því er fram kemur í ársskýrslum þeirra.