Axel Weber bankastjóri Seðlabanka Þýskalands (d. Bundesbank) tilkynnti Angelu Merkel í dag að hann myndi láta af embætti 30 apríl n.k., árið áður en skipunartímabili hans lýkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá seðlabankanum.

Weber var af mörgum talinn líklegasti eftirmaður Jean-Claude Trichet bankastjóra Seðlabanka Evrópu (ECB) sem lætur af embætti í október á þessu ári.  Tíðindi dagsins eru talin minnka líkurnar á því að Weber taki við af Trichet.

Þetta minnkar jafnframt líkurnar á að Þjóðverji hreppi embætti bankastjóra ECB. Þýskaland er sterkasta efnahagseining Evrópu og það eitt minnkar áhuga annarra aðildarríkja evróska myntsamtarfsins á því að Þjóðverji stjórni bankanum.

Þetta eru því vonbrigði fyrir Merkel kanslara sem hafði vonað að sterkur Þjóðverji í forsvari fyrir ECB myndi frekar fá þýska kjósendur til að sætta sig við stuðning þýskra stjórnvalda við neyðarsjóð fyrir skuldug ríki Evrópu, s.s. Grikkland og Írland.

Þýsk blöð hafa í dag sagt frá orðróm þess efnis að Weber kunni að taka við Josef Ackermann bankastjóra Deutsche Bank, stærsta banka Þýskalands.