Charles J. Antonucci Sr., fyrrum bankastjóri Park Avenue bankans í New York, viðurkenndi í dag fyrir í þinghaldi við dómstól á Manhattan að hann væri sekur um tilraun til að svíkja fé út úr neyðarsjóði Bandaríkjastjórnar.

Sjóðurinn nefnist TARP (e. Troubled Asset Relief Program) og var komið á fót til að kaupa eignir af fjármálastofnunum í vandræðum þegar fjármálakreppan var í algleymingi.

Þetta kemur fram á vef WSJ.

Antonucci viðurkenndi sekt sína í sex af tíu ákæruliðum. Alvarlegasti ákæruliðurinn var að hafa villt um fyrir og logið að eftirlitsaðilum og fleirum um raunverulega stöðu á Park Avenue bankanum með það að markmiði að fá aðstoð úr TARP sjóðnum. Einnig viðurkenndi hann að hafa þegið mútur, brotið lög um verðbréfaviðskipti og hafa gerst sekur um samsæri.

Antonucci viðurkenndi að hafa tekið 6,4 milljónir dala úr sjóðum bankans, fært þá yfir á eigin bankareikning og tilkynnt um að hann hafi fjárfest í bankanum fyrir sem nam 6,5 milljónum dala. Tilkynningin átti að auka trú fjárfesta á bankanum.

Hinn 59 ára Antonucci á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi, milljóna dala sekt og upptökur eigna sem nemur 11,2 milljónum dala.