Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir núverandi húsnæði bankans óviðunandi. Stór hluti húsnæðisins sem bankinn noti í Kvosinni sé leiguhúsnæði og flestir leigusamningarnir á milli eins og þriggja ára. Hann segir þetta skapa rekstraráhættu fyrir bankann og skapa óhagræði. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Eins og VB.is hefur greint frá hefur bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn í Reykjavík verið gagnrýnd undanfarna daga. Þar má nefna að bankinn, sem er í ríkiseigu, tók ekki lægsta boði fyrir húsnæði.

Steinþór segir hins vegar í samtali við Fréttablaðið að núverandi húsnæðistkostur sói peningum. Það væri 700 milljónum króna ódýrara að koma húsnæðinu í framtíðarmynd. Hann segir lóðina við Austurhöfn hafa fengist á góðu verði og að gatnagerðargjöld voru innifalin. Steinþór segir að vegna þess að búið sé að byggja mikið af bílastæðum við Hörpuna sem eru tóm á daginn en full á kvöldin er mikil samnýting. Bankinn mun því þurfa að byggja færri bílastæði þar en hef hann væri annars staðar. Hann segir því að þegar allt komi til alls sé þetta ódýrari lausn en að byggja höfuðstöðvar annars staðar.