Allir sem sæti eiga í vaxtaákvörðunarnefnd Englandsbanka voru sammála um það á fundi sínum í byrjun mánaðar að halda stýrivöxtum óbreyttum. Þeir hafa um nokkurra missera skeið staðið í 0,5%.

Fram kemur í minnisblaði frá fundi nefndarinnar að á sama tíma og menn voru sammála um óbreytt vaxtastig studdu sex af níu nefndarmönnum óbreytt kaup seðlabankans á eignum banka og fjármálafyrirtækja til að styðja við bata efnahagslífsins. Fjárhæðin sem nýtt er til kaupanna nemur 375 milljörðum punda. Þremenningarnir vildu bæta 25 milljörðum punda við þá upphæð.

Á meðal þeirra sem vildu auka innspýtinguna í efnahagslífið með þessum hætti var Mervyn King, fráfarandi seðlabankastjóri Bretlands.