Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þignmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að allir sem sitja í bankastjórn og bankaráði Seðlabanka Íslands ættu að víkja svo að hægt verði að byggja upp traust og trúnað á ný.

Ragnheiður segist ætíð hafa haft þá skoðun að fyrrverandi stjórnmálamenn ætti ekki að skipa í stjórnir ríkisfyrirtækja. "Nú ríkir hvorki traust né trúnaður gagnvart seðlabankastjórum né bankaráði Seðlabankans og þess vegna ættu allir er þar sitja að víkja svo hægt verði að byggja upp traust og trúnað á ný og samhliða á að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, stjórnskipulag bankans, stöðu og markmið." "Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu 17 árum verið í ríkisstjórn og staðið með öðrum að mörgum framfarabreytingum," segir ennfremur. "Nú ríkir reiði í garð Sjálfstæðisflokksins og forystumönnum hans er kennt um ófarir sem þjóðin hefur ratað í. Það er eðlilegt og við sjálfstæðismenn verðum að líta okkur nær, skoða frelsið og breytingaferli því tengt og sérlega eftirlitið sem brást. Enginn á að skorast undan því að endurmeta, læra af mistökum og gera betur. En grunngildi Sjálfstæðisflokksins eru nú sem fyrr gulls ígildi og um þau þarf að standa vörð." "Krónan og peningamálastefnan hafa beðið hnekki, eru rúnar trausti innanlands sem utan. Því þarf að endurskoða og gera úttekt á peningamálastefnunni og taka næstu skref. En hvert liggja þau? Við eigum tvo kosti, annars vegar að byggja krónuna upp á nýtt eða taka upp evru. Í dag er æði langsótt að ætla að byggja upp traust á krónunni til framtíðar litið," segir í greininni. "Við þurfum hreinskiptna umræðu um gjaldmiðilinn, nýjan gjaldmiðil og stöðu Íslands í samfélagi þjóða."