Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sagði í Silfri Egils í Ríkissjónvarpsins að bankastjórn Seðlabankans ætti að sýna þá smekkvísi að segja af sér vegna undangenginna atburða. Þá myndu þeir spara ríkisstjórninni það ómak að breyta lögum svo hægt sé að setja þá af.

Þorvaldur segir mistök Seðlabankans í peningamálastjórnun fyrst og fremst hafa verið tvö: „Fyrstu mistökin voru þau að lækka bindiskyldu þegar hún hefði átt að vera hækkuð. [..] Hin mistökin voru þau að stýrivaxtahækkanir hófust of seint. Þetta eru einfaldlega tæknileg mistök sem hefðu ekki átt að eiga sér stað," sagði hann.

Jafnframt sagði Þorvaldur að stýrivaxtatækið eitt dygði ekki í landi eins og Íslandi með verðbólgusögu. Það þyrfti aðrar takmarkanir og leiðir til að halda útlánagleði bankanna í skefjum.