Fjármálaráðherra gæti fjölgað bankastjórum í Seðlabankanum á skipunartíma Más. Í skipunarbréfi sem Bjarni Benediktsson sendi Má Guðmundssyni er eftirfarandi orðum beint til hans: „Tillögur nefndarinnar geta leitt til breytinga á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands sem óhjákvæmilega geta haft áhrif á störf yðar hjá bankanum á skipunartíma yðar.“

Þar vísar fjármálaráðherra til tillagna sem sérstök nefnd um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands skilaði og kemur til með að nota sem fyrirmynd að lagafrumvarpi um ný lög um Seðlabanka Íslands, eigi síðar en 31. desember 2014.

Fyrr í vikunni var greint frá því að fjármálaráðherra íhugaði að fjölga bankastjórum Seðlabankans úr einum í þrjá, og vísa þessi orð í skipunarbréfi Más því til þess að til slíkra breytinga gæti hugsanlega komið.