*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 23. júlí 2013 11:54

Bankastræti 7 til sölu

Eitt stærsta og dýrasta verslunarplássið í miðborginni hefur verið sett á sölu.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Bankastræti 7 hefur verið sett á sölu. Um er að ræða jarðhæð og kjallara sem í rúmlega áratug hýsti verslun Sævars Karls en þar er nú að finna verslun Cintamani. Alls er húsnæðið um 800 fermetrar að stærð. Í tilkynningu segir að um sé að ræða eitt stærsta og dýrasta verslunarpláss í Reykjavík, en óskað er eftir tilboðum í eignina. 

Það er fyrirtækjaráðgjöf Arev NI sem sér um sölu eignarinnar fyrir hönd Vigfúsar Guðbrandssonar & Co,  en Arev er eigandi alls hlutafjár í félaginu. Félagið hefur gert leigusamning við Cintamani um leigu á húsnæðinu út janúar 2021. Í Bankastræti er fjöldi verslana sem einbeitir sér að smásölu til ferðamanna á Íslandi og er um að ræða lykilstaðsetningu í þeim efnum.

Bankastræti 7 var byggt árið 1930 og er í góðu ásigkomulagi, að því er fram kemur í tilkynningu. Þar var Samvinnubankinn lengi til húsa en árið 1998 var innra byrði húsnæðisins endurnýjað að miklu leyti þegar verslun Sævars Karls var opnuð í húsinu. 

Gert er ráð fyrir að tilboðum sé skilað inn fyrir 31. júlí næstkomandi.