Bankasýsla ríkisins hefur óskað eftir því að Landsbankinn og Íslandsbanki fresti aðalfundi sínum um mánuð og að þeir verði haldnir um miðjan apríl í stað þess að vera haldnir um miðjan mars.

Landsbankinn staðfesti það við Viðskiptablaðið að beiðni hafi borist frá Bankasýslunni þar sem óskað var eftir því að aðalfundi yrði frestað. Áætlað er að aðalfundur bankans verði haldinn þann 14. apríl nk, en sú dagsetning kemur fram á heimasíðu bankans.

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka vildi ekki staðfesta að Íslandsbanki hefði fengið þessa beiðni frá Bankasýslunni.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins vildi ekki tjá sig um hvort beiðnin hafði verið send eða um ástæður beiðninnar þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir svörum.

Samkvæmt heimildum mbl.is þá bað Bankasýslan um frestun vegna þess að beðið er eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins varðandi hvort að sama valnefnd geti skipað stjórnarmenn í báðum bönkum. Samkvæmt 7. gr. laga um Bankasýslu ríkisins á hún að skipta sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins til að sitja í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar.