Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að fjárveiting til Bankasýslu ríkisins verði lækkuð 50 milljónir króna á næsta ári. Gangi það eftir verður fjárveitingin 47,1 milljón króna samkvæmt endurskoðuðum fjárlögum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 97,1 milljóna króna fjárveitingu til Bankasýslunnar. Stefnt er að því að Bankasýslan verði lögð niður í um miðjan september á næsta ári. Ljóst þykir að með skertri fjárveitingu verði starfstími hennar ekki framlengdur.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í byrjun október segir um Bankasýsluna að fjárveitingar stofnunarinnar haldist óbreyttar á milli ára að undanskildum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 2,8 milljónum króna. Þá er tæpt á því að Bankasýslan var sett á fót árið 2009 og tók hún til starfa 1. janúar árið 2010. Hún átti að hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum því að hún er sett á fót og samkvæmt því lögð niður í árslok 2014. Því hefur nú verið flýtt.

Bankasýslan heldur utan um eignarhluti ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Hún á m.a. nær allt hlutafé í Landsbankanum, 5% hlut í Íslandsbanka og 13% hlut í Arion banka. Þá fer Bankasýslan með hluti ríkisins í fimm sparisjóðum.