Til skoðunar er að Bankasýsla ríkisins kaupi 99,3% eignarhlut Arion banka í AFL sparisjóði. Í Morgunblaðinu í dag segir að kaupverðið geti verið greitt með hluta af 13% eignarhlut ríkisins í Arion banka.

Við yfirtöku Arion banka á Sparisjóði Mýrarsýslu árið 2009 fylgdi með 95% stofnfjár í AFL sparisjóði, sem er með starfsemi á Siglufirði og Sauðárkróki. Allt frá árslokum 2011 hafa verið áform um að sparisjóðinn renni inn í Arion banka. Af þeirri sameiningu hefur hins vegar ekki enn orðið.

AFL er stærsti sparisjóður landsins með um 25-30% af veltu þeirra sparisjóða sem enn eru starfræktir. Eigið fé hans nam 909 milljónum króna í lok árs 2012.

Eignarhlutur ríkisins í Arion banka er metinn á um 18 milljarða miðað við bókfært eiginfjárvirði. Því er ljóst að sá hlutur sem ríkið myndi afhenda í bankanum við möguleg kaup á AFL sparisjóði yrði vel innan við 1%, að því er segir í Morgunblaðinu.