Bankasýsla ríkisins hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort farið verði fram á hluthafafund í Landsbankanum vegna áforma um nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Bankasýslan fer með hlut ríkisins í Landsbankanum. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segir í samtali við RÚV að ákvörðunin verði tekin fyrir lok mánaðarins. Undirbúa þurfi málið vel ákveði stofnunin að fara fram á hluthafafund.

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur þegar óskað eftir hluthafafundi vegna málsins. Þá ákváðu stjórnendur Landsbankans í síðustu viku að fresta hönnunarsamkeppni um nýbygginguna.