Bankasýsla ríkisins hefur sent bréf til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem fram kemur að stofnunin hafi kynnt sér áform um sölu ríkisins á allt að 30% eignarhlut í Landsbankanum hf. í fjárlagfrumvarpi fyrir árið 2016. Greint er frá þessu á vef Bankasýslunnar .

Í bréfinu kemur fram að stofnunin hafi þegar hafið nauðsynlega undirbúningsvinnu og áætlar að skila formlegri tillögu til ráðherra í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum fyrir 31. janúar næstkomandi.

Fram að þeim tíma mun Bankasýslan ræða mögulega útfærslu á sölu við Landsbankann, stærstu stofnanafjárfesta innan lands, eins og lífeyrissjóði og fjárfestingarsjóði, og alþjóðlega fjárfestingarbanka sem stofnunin kann að kalla til ráðgjafar.

Stofnunin áætlar að birta opinberlega skýrslu um niðurstöður sínar síðar á þessu ári um bráðabirgðaniðurstöður sínar.

Bréf Bankasýslunnar má lesa í heild sinni hér.