Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem felur það m.a. í sér að lög um Bankasýslu ríkisins falli úr gildi.

Reyndar stendur í lögum um bankasýsluna að hún skyldi ljúka störfum sínum innan fimm ára frá gildistöku laganna og yrði þá lögð niður. Þessi fimm ár voru liðin seint á síðasta ári, en vegna þess að lög frá árinu 2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum gerðu ráð fyrir aðkomu Bankasýslunnar var stofnunin ekki lögð niður.

Þessi lög frá árinu 2012 munu einnig falla úr gildi við gildistöku nýju laga fjármálaráðherra. Lögin gera ekki veigamiklar breytingar á þeim lagaramma og meginreglum sem þegar gilda um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Breytingin snýr einkum að því að Bankasýslan verður lögð niður og að eign ríkisins í fjármálafyrirtækjum færist beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þá er lagt til að sjálfstæð ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu verði fjármála- og efnahagsráðherra til ráðgjafar við ýmsa þætti er snúa að eigandastefnu, meðferð eignarhalds og sölu á þessum félögum.