Bankasýsla ríkisins telur hyggilegt, að ráðist verði fyrst í sölu minnstu eignarhluta, sem stofnunin fer með, og síðar í sölu stærri eignarhluta, og þá jafnvel í nokkrum áföngum. Þetta kemur fram í nýrri framtíðarstefnu Bankasýslu ríkisins.

Gera má ráð fyrir því, að fyrst verði lagt til að ráðist verði í sölu eignarhlutar í Íslandsbanka en þó ekki fyrr en í fyrsta lagi á síðari hluta þessa árs.

Eignarhlutar í Arion banka og Landsbankanum verða væntanlega ekki seldir fyrr en á næsta ári og sala á Landsbankanum gæti farið fram í nokkrum áföngum.

Í viðauka við skýrsluna er rakið hvernig staðið var að sölu eignarhluta norska ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá árinu 1991, en talið er mikilvægt að við sölu á eignarhlut íslenska ríkisins í bönkunum verði horft til reynslu annarra þjóða og metið hvaða lærdóm sé unnt að draga af henni og nýta í því ferli, sem framundan er hér á landi.