Bankasýsla ríkisins leggur til við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að hluti í Íslandsbanka verði auglýstur til sölu og að söluferlinu verði lokið á fyrri helmingi næsta árs í bréfi til Bjarna . Lagt er til að bankinn verði skráður á markað í kjölfar almenns útboðs.

Bankasýslan lagði til í mars að bankinn yrði settur á sölu en sú tillaga var dregin til baka síðar í sama mánuði þegar faraldurinn var farinn að bíta hér á landi. Faraldurinn hefur hins vegar ekki haft jafn mikil áhrif og Bankasýslan átti von á.

Bent er á að hlutabréf íslenskra félaga á aðallista kauphallarinnar hafi hækkað um 50% frá 16. mars til 16. desember og hlutabréf í evrópskum bönkum (STOXX Euro 600 banka vísitalan) hafi hækkað um tæpan þriðjung.

Bankasýslan telur ekki ráðlegt að ákveða stærð eignarhlutar sem verður seldur að svo stöddu.

Þá bendir Bankasýslan á að söluferlið verði umfangsmikið. Það hefjist með ráðningu alþjóðlegra og innlendra lögfræði- og söluráðgjafa og ljúki fimm mánuðum síðar með öflun tilboða og áskriftarloforða.