Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar hefur stofnað hlutafélagið Sparisjóður Austurlands hf. Tilgangur félagsins er að yfirtaka rekstur Sparisjóðs Norðfjarðar og halda honum áfram í breyttu félagaformi, en sjóðurinn er nú rekinn sem sjálfseignarstofnun.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins sem fer með 49,5% af stofnfé Sparisjóðs Norðfjarðar og 55,3% af stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja, segist mjög hlynntur frekari sameiningu í sparisjóðakerfinu.

„Við erum opnir fyrir öllu og við hvetjum menn til að ræða saman, en þetta þarf frumkvæði stjórnar beggja sjóða og samþykki,“ segir hann.

Sparisjóður Vestmannaeyja er til að mynda með þrjár afgreiðslur á Austurlandi, í Hornafirði, á Djúpavogi og Breiðdalsvík.

Hann kveðst hafa góðan skilning á áformum um að breyta um félagaform, enda henti sjálfseignarstofnun illa í nútíma fjármálaumhverfi auk þess sem það geri sparisjóðnum erfiðara fyrir að viðhalda góðu eiginfjárhlutfalli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .