Sala til erlendra banka Bankasýsla ríkisins telur mikilvægt að sannreyna áhuga erlendra banka á að fjárfesta í innlendum fjármálafyrirtækjum, en hann hefur verið takmarkaður hingað til.Þetta kemur fram í framtíðarstefnu bankasýslunnar sem var birt á vefsíðu stofnunarinnar í dag.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í framtíðarstefnunni segir að kostir erlendrar fjárfestingar séu þeir að auðveldara yrði fyrir innlend fyrirtæki að ná í alþjóðlegt fjármagn, að samkeppni á markaði myndi líklega aukast og að með sölunni væri unnt að flýta fyrir afléttingu gjaldeyrishafta. Sala til erlendra banka færi aðeins fram að undangengnu opnu söluferli. Gallinn við þessa aðferð við núverandi aðstæður sé að afkoma og hlutabréfaverð erlendra banka hafi verið óviðunandi upp á síðkastið. Erlendir bankar hafi verið að selja jaðareignir, endurmeta lánasöfn sín í kjölfar ríkjaskuldakreppunnar í Evrópu, endurskipuleggja rekstur sinn og endurfjármagna í samræmi við nýja löggjöf. Einnig sé ólíklegt að bankar, sem einbeiti sér að sínum eigin heimamarkaði, séu líklegir til að fjárfesta í íslenskum banka. Loks beri að hafa í huga að erlendir bankar vilji alla jafna eignast ráðandi hlut í fjármálafyrirtæki, en ekki minni hluta.