Bankasýsla ríkisins óskar eftir tilnefningum í stjórnir sparisjóða sem fyrirséð er að verði á forræði Bankasýslunnar. Nú hefur stofnunin óskað sérstaklega óskað eftir tilnefningum í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar.

Þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, undirbýr tilnefningar aðila fyrir hönd ríkisins í stjórnir fyrirtækja sem eru á forræði stofnunarinnar. Valnefndina skipa þau Kristín Rafnar, forstöðumaður skráningarsviðs Nasdaq OMX, formaður, dr. Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Gátu valið úr stórum hópi hæfileikafólks

Í fréttatilkynningu er þetta haft eftir Elínu Jónsdóttur, forstjóra Bankasýslu ríkisins: „Bankasýsla ríkisins leggur áherslu á vandað ferli við val á þeim einstaklingum sem valdir eru til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Við óskuðum á sínum tíma eftir tilnefningum frá almenningi vegna skipunar í stjórnir Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka og voru viðbrögðin vonum framar. Bankasýslunni barst fjöldi ferilskráa og gat því valið úr stórum hópi hæfileikafólks þegar tilnefnt var í stjórnir bankanna.

Sparisjóðirnir gegna veigamiklu hlutverki á þeim svæðum sem starfsemi þeirra nær til og miklu skiptir að vel takist til við val á stjórnarmönnum í þeim sparisjóðum sem verða á forræði Bankasýslunnar. Ég vil sérstaklega taka fram að við leggjum mikið upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið m.a. ráða ferðinni þegar stjórnarmenn sparisjóða verða valdir.“