Berglind Rut Hauksdóttir byrjaði sem gjaldkeri í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli þegar hún hóf störf hjá Landsbankanum árið 1995. Síðan hefur hún smátt og smátt unnið sig upp innan bankans í bænum og tók hún við sem aðstoðarútibússtjóri árið 2006. Síðastliðinn föstudag varð hún síðan útibússtjóri í Hafnarfirði.

„Ég er vön starfinu og þekki það vel, enda hef ég starfað sem næstráðandi síðastliðin tíu ár. En ég verð að takast á við þá áskorun sem fylgir meiri ábyrgð,“ sagði Berglind Rut sem segir verkefni útibússtjóra í banka í dag alls ólík því þegar menn biðu í röðum fyrir utan skrifstofur þeirra í von um lán.

„Nei, þetta er akkúrat ekki þannig, þetta er orðið svo breytt. Það er mjög spennandi að fá að starfa hérna í Hafnarfirði, því það var gerð breyting á ásýnd og og innanhúss í útibúinu, í takt við breytt umhverfi í fjármálaþjónustu, og hefur sjálfafgreiðslulausnum verið fjölgað hérna í útibúinu.“

Þó að Berglind Rut sé fædd og uppalin í Innri-Njarðvík og búi í Keflavík í dag þá hefur hún góða tengingu við Hafnarfjörð.

„Móðir mín er Hafnfirðingur í húð og hár, fædd þar og uppalin,“ segir Berglind Rut sem hyggst áfram búa á Suðurnesjunum þrátt fyrir langa vegferð til og frá vinnu.

„Það eru einstaklega góðar strætósamgöngur á milli bæjanna sem henta mér sérstaklega vel, því vagninn fer eiginlega heiman frá mér og upp að dyrum hér í útibúinu. Ég hef hug á því að taka strætó á milli eins mikið og ég mögulega get,“ segir Berglind Rut sem segist alls ekkert vera orðin of fín til þess.

„Nei, alls ekki, ég er úr sveitinni, okkur finnst það lítið mál að útibússtjóri sé í strætó. Þetta tekur ekki nema í mesta lagi hálftíma.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift .