Óhætt er að segja að áhugi erlendra aðila á íslensku bönkunum og efnahagslífi hafi aldrei verið eins mikill og erlendar greiningardeildir, matsfyrirtæki og bankar skrifa nú af miklum móð um íslensku bankanna.

Í þessari viku komu til að mynda út þrjár skýrslur frá virtum greiningardeildum. Það sem að virðist einkenna umræðuna nú er að tónninn í skýrslunum virðist nú vera jákvæðari en áður í garð bankanna og einnig virðast greiningaraðilarnir í auknum mæli aðskilja íslensku viðskiptabankana þrjá í umfjöllun sinni í stað þess að setja þá í sífellu undir sama hatt eins og venjan hefur verið hingað til. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að áhættuálag á skuldatryggingum bankana á eftirmarkaði með skuldabréf er nú mismunandi sem er til vitnis um að markaðurinn sé í auknum mæli farin að greina á milli áhættu íslensku bankanna. Markaðsaðilar virðast telja Glitni standa traustari fótum en hinir bankarnir þar sem áhættuálag Glitnis er nú talsvert lægra en hinna bankanna.

Merill Lynch bankinn var fyrstur til að greina á milli bankanna á skýran hátt í umfjöllun sinni en í síðustu viku kom út frekar neikvæð skýrsla um íslensku bankana frá Merill Lynch þar sem staða Glitnis var álitin betri en hinna bankanna aðallega vegna minna hlutfalls gengishagnaðar í heildartekjum samanborið við hina bankana tvo og einnig kom Glitnir best út úr álagsprófi sem Merill Lynch framkvæmdi á öllum bönkunum.

Credit Sights kom fyrstur

Ný skýrsla greiningarfyrirtækisins Credit Sights um Glitni sem kom út á mánudaginn er á svipuðum nótum og Merill Lynch skýrslan að því leyti að Credit Sights telur líkt og Merill Lynch að áhætta í rekstri Glitnis sé minni en hinna bankanna og að bankinn njóti nokkurar sérstöðu þegar hann sé borin saman við hina tvo. Að mati Credit Sights er þetta vegna þess að Glitnir byggir afkomu sína á hefðbundinni bankastarfsemi og fylgir mun skýrari stefnu en hinir bankarnir hvað varðar fjárfestingar erlendis. Credit Sights telur þó að áhyggjur af krosseignarhaldi eigi við íslenska bankakerfið í heild og Glitnir sé þar ekki undanskilinn. Að mati Credit Sights er vægi áhættunnar sem fylgir krosseignarhaldi ekki nægilega mikið þegar lánshæfismat bankanna er ákvarðar og því sé lánshæfismat Moody's á bankanum ofmetið. Þrátt fyrir þessar athugasemdir kemur fram í greiningunni að arðsemi eiginfjár Glitnis á síðasta ári (35%) sé í hæsta lagi samanborið við aðra evrópska banka og Credit Sights telur að ef rétt verði haldið á spilunum þá ætti Glitnir að geta haldið áfram að skila góðri afkomu.

Morgan Stanley var annar

Greiningardeild fjárfestingarbankans Morgan Stanley sendi frá sér skýrslu á mánudaginn sem greindi frá því að bankinn teldi fjárfesta hafa brugðist of hart við tíðindum um aukna kerfislæga áhættu íslensku bankanna og að fjárfestar ættu að gera aukinn greinarmun á milli bankanna þriggja. Morgan Stanley mælti með kaupum á skuldabréfum Glitnis og Landsbanka miðað við núverandi vaxtakjör en gat hvorki mælt með né á móti kaupum á skuldabréfum Kaupþings banka. Morgan Stanely telur að vegna áhættu Kaupþings banka af hlutabréfastöðum verði að greina hann frá hinum bönkunum. Morgan Stanley gagnrýndi einnig Kaupþing banka fyrir að beita of ágengri fjárfestingastefnu. Umfjöllun Morgan Stanley var þó í heildina litið á jákvæðum nótum of í skýrslunni kom fram að greiningardeildin telji íslenskt efnahagslíf vera traust og vel í stakk búið til að þola sveiflur sem gætu verið framundan og að álagsprófun sýni að allir bankarnir muni standa af sér meiriháttar áföll í hagkerfinu ef til þeirra komi. Morgan Stanley finnur engin rök sem styðji breytingar lánshæfismatsfyrirtækja á lánshæfismati bankanna.

Dresdner Kleinwort Wasserstein var sá þriðji

Loks kom út skýrsla Dresdner Kleinwort Wasserstein sem segir líkt og Morgan Stanley að markaðir hafi brugðist of harkalega við neikvæðum fréttum um bankann. Í skýrslu greiningardeildar þýska bankans kemur fram að bankinn hafi fulla trú á bönkunum og mæli með kaupum á skuldabréfum þeirra. Að mati greiningardeildar Dresdner veltur þróun bankanna á skuldabréfamarkaðinum að miklu leyti á tiltrú fjárfesta á bönkunum. Að lokum telur Dresdner að bankarnir muni rata í gegnum þá erfiðleika sem þeir eru í um þessar mundir og verða sterkari og reyndari í kjölfarið.

Aðilar innan bankakerfisins taka því að sjálfsögðu fagnandi að umræðan um bankana skuli vera að taka aðra stefnu sem er bæði jákvæðari og ekki eins einsleit og áður og flestir eru nú sammála um að fjármálamarkaðurinn hafi brugðist allt of hart við neikvæðum tíðindum um bankana undanfarnar vikur. Síðan skýrsla Fitch Ratings kom út 20. febrúar síðastliðinn hafa hlutabréf fjármálafyrirtækjanna lækkað töluvert og tíðin í Kauphöllinni hefur verið afar döpur síðan þann dimma febrúardag. Núna virðist umræðan þó vera að breytast og trú markaðarins á bönkunum virðist vera að koma til baka. Búið er að skamma fjölmiðla fyrir að óhóflega umfjöllun um svörtu skýrslurnar sem hafa borist yfir hafið, bankarnir hafa allir staðist margslungið álagspróf Fjármálaeftirlitsins, Halldór hefur lýst því yfir að staða bankanna sé traust og málið er dautt. Allaveganna þangað til næsta skýrsluflóð hefst.