First Citizens Bank, sem er með höfuðstöðvar í Raleigh í Norður-Karólínu, hefur náð samkomulagi um að kaupa stóran hluta af eignum hins fallna banka Silicon Valley Bank (SVB).

Í tilkynningu sem Tryggingasjóður innstæðueiganda í Bandaríkjunum (FDIC) sendi frá sér í gærkvöldi kemur fram að First Citizens muni taka við öllum innstæðum hjá SVB að andvirði 119 milljarðar dala og útlánum ásamt því að taka við rekstri sautján útibúa.

First Citizens mun kaupa eignir SVB að andvirði 72 milljarðar dala í bókum bankans við fall hans á afslætti sem nemur 16,5 milljörðum dala. FDIC mun áfram halda á 90 milljörðum dala af verðbréfum og öðrum eigum.

FDIC áætlar að kostnaður innstæðutryggingasjóðsins af falli SVB muni nema tæplega 20 milljörðum dala. Bandarískum bönkum er skylt að eiga aðild að og greiða í sjóðinn til að tryggja innstæður viðskiptavina sinna.